Enginn veit með vissu hversu gamall golfleikurinn er, en hann er a.m.k. sex hundruð ára. Þó hefur aðeins verið miðað við átján holur síðan um og eftir 1870. Fram að því mótaðist holufjöldi golfvalla nær eingöngu af ytri aðstæðum, þ.á.m. landrými, fjármunum og grasgæðum. Flestir þessir vellir voru í Skotlandi. Til dæmis, þá hafði völlurinn í Leith fimm holur, gamli Musselburgh-völlurinn var lengi vel sjö holur, Prestwick hafði þrettán og Montrose 25.

 

Breytingar á þessu má upphaflega rekja til 4. október 1764, en þá fór fram merkasti fundur golfsögunnar. Það var þá, í St. Andrews, sem William St. Claire og aðrir viðstaddir ákváðu að fækka holum á gamla vellinum úr 22 í átján. Í fundargerðinni segir:

 

“The captain and gentlemen golfers present, are of (the) opinion that it would be for the improvement of the links that the four first holes should be converted into two. They therefore have agreed that for the future, they shall be played as two holes, in the same way as presently marked out.”

 

Þetta má þýða þannig: “Viðstaddir golfherrar eru þeirrar skoðunar að það yrði til bóta fyrir golfvöllinn að fyrstu fjórum holunum verði breytt í tvær. Þeir hafa því samþykkt að framvegis skuli þær leiknar sem tvær holur á sama hátt og hann er nú merktur.”

 

Taka skal fram að holurnar voru í raun aðeins ellefu fyrir breytingu. Þær voru leiknar tvisvar, fyrst út með ströndinni og svo heim aftur. Með því að sameina fjórar holur svo úr urðu tvær fækkaði leiknum brautum þannig um fjórar, úr 22 í átján.

 

Takið eftir orðunum “for the improvement of the links”, eða “til bóta fyrir golfvöllinn”. Hver er þá raunverulegur boðskapur ákvörðunarinnar, eða skilaboð hennar? Að allir vellir skuli verða átján holur? Nei, það er hvergi fullyrt. Líklegast er að viðstaddir teldu völlinn skemmtilegri viðureignar með þessari breytingu. Fram hafa komið tilgátur um að fyrstu og síðustu holurnar hafi þótt fremur stuttar og fábrotnar. Þetta er fjallað ítarlega um í nýútkominni bók Peter N. Lewis, sagnfræðings R&A, sem heitir “Why Are There 18 Holes?”

 

Með þessu lögðu William St. Claire og aðrir fundarmenn áherslu á gæði umfram magn í stað þess að festa sig við einhvern ákveðinn fjölda brauta. Þetta breytti þó engu um stærð og holufjölda annarra golfvalla í hartnær heila öld á eftir, en það breyttist fljótlega eftir 1858, þegar R&A ákvað að uppfæra leikreglur sínar, sem fram kom að áttu aðeins að gilda um leik á þeirra eigin velli.

 

Þar sagði: “One round of the links, or eighteen holes, is reckoned a match, unless otherwise stipulated.”

 

Þetta má þýða þannig: “Einn hringur á golfvellinum, eða átján holur, er álitinn vera einn leikur, nema annað sé tekið fram.”

 

Um þetta leyti hafði R&A í St. Andrews brotist til mikilla áhrifa í skosku golfi. Gamli völlurinn varð fljótlega að miðpunkti í allri þróun og umræðu. Ekki leið á löngu þar til aðrir golfklúbbar tóku að fylgja R&A, svo til í einu og öllu. Holufjöldi var engin undantekning, jafnvel þótt staðhættir hentuðu ekki. Þetta gerðist ekki síður þar sem St. Andrews-menn voru fengnir til að gefa ráð um lagningu golfvalla víðar um Bretlandseyjar og síðar í Bandaríkjunum. Þetta átti sér stað þegar jarðarbúar voru rétt rúmlega einn milljarður, Skotar voru rúmlega þrjár milljónir og iðnbyltingin hafði breytt lífi fólks. Orð eins og auðlindanýting, umhverfisvernd og samfélagsábyrgð voru þessu fólki ekki jafn töm og mörgum þeirra 7500 milljóna manna sem nú nýta jörðina eða Skotum samtímans, sem nú eru á sjöttu milljón.

 

Af þessu má álykta að 18-holna viðmiðun golfleiksins í dag sé afleiðing einhvers konar misskilnings eða röð tilviljana og að e.t.v. sé það í anda leiksins að golfvellir sníði sér stakk eftir vexti. Í ljósi alls þessa má spyrja: Hví endurheimtum við ekki þessa aldagömlu, rótgrónu en gleymdu nálgun? Við nánari skoðun kemur í ljós að hún getur framkallað fjölþættan ávinning í þágu golfíþróttarinnar auk samfélags okkar og umhverfis.

Endurheimt sveigjanlegs holufjölda framkallar fjölþættan ávinning umfram óbreytt ástand.

Nota misjafnlega stór landsvæði.

Svæði sem aðrir þurfa ekki, skemmt land o.s.frv.

Erfitt að fá land undir 18 holur í þéttbýli.

Betri staðsetning. Betra aðgengi, minni ferðatími og kostnaður.

Laða að börn og ungmenni. Íþrótta- og æskulýðsstarf.

Framtíðin.

Velsæld golfleiksins.

Betri ímynd. Rennir sterkari stoðum undir óskir til sveitarfélaga um aðstöðusköpun.

Blanda golfi saman við

aðra landnýtingarkosti,

s.s. aðra útivist.

Betra aðgengi almennings.
Sparnaður, samlegðaráhrif og samnýting innviða.

Hanna auðgengna velli

með styttri gönguvegalengd

frá flatar til næsta teigs.

Njóta og halda á lofti

lýðheilsuáhrifum

golfleiksins.

Lágmarka notkun golfbíla.

Dregur úr orkunotkun.

Leyfa náttúrunni að

ráða för og nota

innviði sem fyrir eru.

Minni jarðvinna.

Betri golfholur.

Skemmtilegra golf.

Minna fótspor.

Sveigja hjá og vernda

viðkvæm svæði.

Hanna vandamálin út,

minni verkfræði.

Sparnaður, bæði

í heild og á hverja holu.

Bjóða upp á afþreyingu

sem tekur hæfilegan tíma.

Hámarka getu golfleiksins til að vinna í þágu samfélagsins.

Lægri vallargjöld,

í heild og á hverja holu.

Betra golf fyrir minna fé.

Fækka takmarkandi

þáttum í hönnun.

Sveigjanlegur

holufjöldi, helst

milli 9 og 18.

Golf verði sjálfbært, aðgengilegra og álitlegra sem afþreyingarkostur.

6- og 12-holna vellir leysa ekki nema hluta vandans

 

12 holur

 

Flestir þeirra fjölmörgu golfvalla, sem nú glíma við fjárhagserfiðleika, geta ekki farið úr átján holum í nákvæmlega tólf nema með því að breyta einhverjum brautum, færa til teiga eða flatir, svo úr verði nákvæmlega 12-holna lykkja með lágmarks göngu milli brauta og tengingu við klúbbhús. Slíkar framkvæmdir kosta peninga, sem eigendur þessara valla eiga ekki til. Einnig eykur þessi fastheldni á ákveðinn holufjölda líkur á að afnema þurfi vinsælar brautir, bara svo kapallinn gangi upp.

 

6 holur

 

Nýlega fór fram framúrstefnulegt mót á evrópsku mótaröðinni, undir yfirskriftinni Golf Sixes, þar sem leiknar voru 6 holur í holukeppni og um leið bryddað upp á ýmsum öðrum nýjungum sem skiptar skoðanir eru um. Fram hefur komið áhugi á að þróa þetta fyrirkomulag og auka útbreiðslu þess. Ég tel að það kunni ekki góðru lukku að stýra, þar sem aukin áhersla á enn annan staðlaðan holufjöldann muni gera golfvallagerð enn flóknari og umfangsmeiri en nú er og þarf að vera. Lagt hefur verið til að golfvellir verði almennt lagðir í þrjár 6-holna lykkjur sem allar hafi tengingu við klúbbhús, en til að svo megi verða þarf að verja meiri tíma, efni, vinnu og fjármagni í að laga landið að slíkum velli. Þó valkostum kylfinga fjölgi við þetta, þá leiðir þetta óhjákvæmilega meiri neikvæðra umhverfisáhrifa, aukinnar fjárþörf til framkvæmda og þ.a.l. hækkunar á vallar- og árgjöldum. Best er ef þessu getur verið öfugt farið, að völlurinn verði lagaður að landinu.

Er hægt að leika eitthvað annað en 9 eða 18 holur til forgjafar?

 

Svarið er því miður nei. Golfsamband Íslands leikur eftir vallarmats- og forgjafarkerfi evrópska golfsambandsins, EGA, en samkvæmt því gilda aðeins 9- og 18-holna hringir til forgjafar. Á hinn bóginn styður hliðstætt kerfi bandaríska golfsambandsins, USGA, breytilega lengd golfhringja alveg niður í sjö holur. Þeim sveigjanleika var bætt við með samþykkt nr. 5-2 (e. Decision 5-2), sem er þó ekki fullkomin því hún gerir ráð fyrir að kylfingar gefi sér nettó-par, eða tvo punkta á holu, frá 7. holu til þeirrar níundu, eða frá 13. holu til þeirrar átjándu.

Brjóta þarf ísinn

 

Ónefndur íslenskur landsbyggðargolfklúbbur á undir högg að sækja um þessar mundir, þar sem 9-holna völlur hans er viðkvæmur fyrir vetrarskaða, þungur í rekstri, erfiður á fótinn og er auk þess of langt frá þéttbýlinu til að börn og unglingar fari á hann sjálf. Þrek sjálfboðaliða fer dvínandi og forsvarsmenn klúbbsins telja að finnist ekki nýtt vallarsvæði muni starfsemi hans fljótlega leggja upp laupana.

 

Við skoðun kom í ljós einstaklega hentugt og aðlaðandi svæði fyrir golfvöll, alveg upp við byggðarkjarnann, með möguleika á samstarfi við nærliggjandi ferðaþjónustu með móttöku og veitingasölu. Aðeins einn hængur var á. Svæðið er ekki nógu stórt fyrir níu holur. Á hinn bóginn bauð það upp á sjö frábærar holur, sem flestar mætti vinna beint upp úr hæfilega öldóttum túnunum með slætti, söndun, yfirsáningu o.s.frv. Slíkan völl væri hægt að leika tvisvar, í um þrjár klukkustundir. Kylfingar færu þannig aðeins einu sinni aftur í gegnum fyrsta teig, en ekki tvisvar eins og líkur væru á ef holurnar væru sex eða jafnvel færri. Afkastageta vallarins ætti því að aukast talsvert með því að fara úr sex holum í sjö. Sveitarfélagið hefur áhuga á að útvega landið og taka frekari þátt, en hver þorir að ráðast í gerð sjö-holna golfvallar ef áhrifamestu viðburðirnir fylgja ekki með? Það er ekki bæði sleppt og haldið. Er betra að golf í byggðarlaginu deyi á altari 18 holna? Viðlíka tækifæri leynast víðar á landinu, sem og í ótal borgum og bæjum um heim allan.

 

Með betra aðgengi er von um að hreyfingin og markaðurinn stækki. Það eflir íþróttastarfið og eykur vilja fyrirtækja til samstarfs, sem skilar sér í meira verðlaunafé í atvinnumennsku. Leikur hins almenna kylfings er samofinn keppni þeirra bestu. Endurheimt sveigjanlegs holufjölda, í leik og keppni, þjónar hagsmunum afreks- og atvinnukylfinga í nútíð og framtíð.